Almennar upplýsingar

Hverfið mitt er lýðræðisverkefni hjá Reykjavíkurborg sem fer fram á tveggja ára frest. Þar gefst borgarbúum kostur á að hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi með því að koma með hugmyndir að nýjum verkefnum sem gera borgina okkar betri.

Um verkefnið

Verkefnið snýst í grunninn um forgangsröðun fjármuna til verkefna. Hvert hverfi fær fasta upphæð sem skiptist jafnt á milli hverfa ásamt viðbótarupphæð sem er ákveðin út frá fjölda íbúa í hverju hverfi. 

Hvernig er ferlið?

Ferli verkefnisins skiptist í hugmyndasöfnun, yfirferð hugmynda, uppstillingu kjörseðla, rafræna kosningu og að lokum framkvæmd verkefna. Markmiðið er að virkja almenning til þátttöku í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku. 

Hugmyndasöfnun

Óskað er eftir hugmyndum frá borgarbúum að verkefnum sem verður síðar kosið um í hverfakosningum Hverfið mitt. Hugmyndasöfnun stendur yfir í nokkrar vikur og er auglýst vel á miðlum Reykjavíkurborgar. 
Það er ýmislegt sem þú getur gert til að auka líkurnar á að þín hugmynd komist áfram í kosninguna. Bestu hugmyndirnar snúast um eitthvað sem gerir borgina betri og skapa eitthvað nýtt í hverfinu. Hér er ekki verið að leita að ábendingum um hvernig ætti að laga eitthvað sem er gamalt.

Yfirferð hugmynda

Að lokinni hugmyndasöfnun er komið að yfirferð hugmynda. Nefnd starfsfólks hjá borginni fer þá yfir allar hugmyndir og metur hvort þær uppfylli reglur verkefnisins. Af þeim hugmyndum fara 15 vinsælustu hugmyndirnar í hverju hverfi sjálfkrafa áfram. Íbúaráð hverfisins velur svo 10 hugmyndir til viðbótar.  
Við mat á hugmyndum leitar starfsfólk verkefnisins allra leiða til þess að útfæra hugmyndir svo þær falli að reglum verkefnisins og kjósa megi um þær í kosningunum. Í sumum tilfellum er haft samband við hugmyndahöfunda til þess að skýra betur eða breyta hugmynd svo hún uppfylli reglur verkefnisins. 

Rafræn hverfakosning

Eftir yfirferð hugmynda og uppstillingu kjörseðla er komið að rafrænni kosningu. Kosið er á milli 25 hugmynda í hverju hverfi. Kosningin fer fram á vefsvæði þar sem notandi auðkennir sig með öruggum hætti (með Íslykli eða rafrænum skilríkjum). Þátttaka er opin öllum sem verða 15 ára árið sem kosið er og hafa lögheimili í Reykjavík.