Yfirferð hugmynda og uppstilling kjörseðla

Sendir þú inn hugmynd í Hverfið mitt og vilt vita hvað gerist næst? Þá ert þú á réttum stað. 

Hvað gerist núna?

Þegar hugmyndasöfnun lýkur er komið að yfirferð hugmynda. Þar er farið yfir allar innsendar hugmyndir og metið hvort þær falli að reglum verkefnisins og séu framkvæmanlegar.  

Eftir yfirferðina fer fram uppstilling kjörseðla þar sem 25 hugmyndir fara áfram í kosningu í hverfum Reykjavíkurborgar. Hugmyndir eru síðan frumhannaðar fyrir kosningar þar sem skrifuð er verkefnalýsing fyrir hugmyndina, fundin endanleg staðsetning og hugmynd kostnaðarmetin. 

Hvernig er farið yfir hugmyndirnar?

Nefnd starfsfólks innan borgarinnar fer yfir allar hugmyndir sem sendar eru inn og metur hvort þær uppfylli reglur verkefnisins. Af þeim hugmyndum fara 15 vinsælustu hugmyndirnar í hverju hverfi sjálfkrafa áfram. Íbúaráð hverfisins velur svo 10 hugmyndir til viðbótar.

Við mat á hugmyndum leitar starfsfólk verkefnisins allra leiða til þess að útfæra hugmyndir svo kjósa megi um þær í kosningunum. Hugmyndir sem eiga að framkvæmast á svæðum/lóðum sem hafa sérstök hlutverk eins og á íþrótta-, sundlaugar- og skólasvæðum þarf að skoða sérstaklega. Í sumum tilfellum er haft samband við hugmyndahöfunda til þess að skýra betur eða breyta hugmynd svo hún uppfylli reglur verkefnisins. Öllum hugmyndum verður svarað.

Hvaða sérfræðinga er talað við?

  • Haft er samráð við fjölda sérfræðinga innan borgarkerfisins og utan til að meta hvort hugmyndir falli að reglum verkefnisins og séu framkvæmanlegar. Samráðslistinn er breytilegur frá ári til árs, en undanfarin ár höfum meðal annars talað við:

  • Samgöngudeild
  • Deild náttúru og garða
  • Skipulagsfulltrúa
  • Borgarsögusafn
  • Borgarlögmann
  • Bóka- og listasöfn
  • Fagsvið borgarinnar (til dæmis skóla- og frístundasvið og menningar- og íþróttasvið)
  • Samband íslenskra myndlistarmanna

Hvaða skilyrði þarf hugmyndin að uppfylla?

  • Vera nýframkvæmd – viðhalds- og öryggisverkefnum er vísað annað
  • Kosta ekki meira fjármagn en hverfinu er úthlutað
  • Vera framkvæmanlegar innan tímaramma verkefnisins - þ.e. fyrir árslok 2024
  • Falla að skipulagi og yfirlýstri stefnumótun Reykjavíkurborgar
  • Krefjast ekki verulegs rekstrarkostnaðar á borð við kostnað vegna starfsmannahalds eða vöktunar með öryggismyndavélum
  • Vera á verksviði borgarinnar
  • Vera á opnu svæði í borgarlandinu
  • Vera í samræmi við lög og reglur

Uppstilling kjörseðla

Eftir yfirferð hugmynda fyrir Hverfið mitt var komið að því að stilla upp hugmyndum á kjörseðil fyrir kosningarnar næsta haust. Einungis hugmyndir sem uppfylltu reglur og skilyrði verkefnisins áttu möguleika á að komast á kjörseðil síns hverfis.
Kjörseðlum fyrir Hverfið mitt er stillt upp með 25 hugmyndum í hverju hverfi Reykjavíkur, þar af 15 vinsælustu hugmyndirnar og svo 10 hugmyndir sem íbúaráð hvers hverfis valdi. Næst tekur við frumhönnun hugmyndanna en í því felst að skrifa verkefnalýsingu og kostnaðarmeta hugmyndirnar til að gefa rétta mynd af verkefninu fyrir kosninguna.