Hverfið mitt 2022-2023

Helstu upplýsingar um Hverfið mitt 2022-2023. Allar helstu upplýsingar um hugmyndasöfnunina, uppstillingu kjörseðla og hverfakosningarnar. Allt frá fjölda hugmynda sem voru sendar inn yfir í kosningaþátttöku hverfa Reykjavíkur.

Hugmyndasöfnun og yfirferð

Hugmyndasöfnun fyrir verkefnið Hverfið mitt fór fram dagana 22. september til 27. október 2022. Alls sendu Reykvíkingar inn 1715 hugmyndir og slógu þátttökumet fyrri ára miðað við nær alla mælikvarða.

Líkt og áður var öllum heimilt að skila inn hugmynd og voru hugmyndasmiðir hvattir til að skila vel unnum hugmyndum inn í samræmi við forsendur hugmyndasöfnunarinnar. 

Þetta var í tíunda skiptið sem hugmyndasöfnunin fór fram. Að lokinni hugmyndasöfnun tók við mat fagteymis Reykjavíkurborgar og leitað var til sérfræðinga víða innan sem og utan borgarkerfisins til að meta hvort hugmyndir uppfylli reglur verkefnisins og séu framkvæmanlegar. Við mat á hugmyndum leitaði starfsfólk verkefnisins allra leiða til þess að útfæra hugmyndirnar svo kjósa mætti um þær og í ýmsum tilfellum var haft samband við hugmyndahöfunda til þess að breyta hugmyndum svo þær væru tækar fyrir kosningu.

Þegar yfirferð hugmynda var lokið fór fram uppstilling kjörseðla. Einungis hugmyndir sem uppfylltu reglur og skilyrði verkefnisins áttu möguleika á að komast á kjörseðil síns hverfis. Kjörseðlum fyrir Hverfið mitt er stillt upp með 25 hugmyndum í hverju hverfi Reykjavíkur, þar af 15 vinsælustu hugmyndirnar og svo 10 hugmyndir sem íbúaráð hvers hverfis valdi.

Kosning

Kosning í Hverfið mitt hófst svo þann 14. september og lauk á miðnætti 28. september. Kosningaþátttakan í allri Reykjavík var 12,0%. Þátttakan var mest í Grafarholti og Úlfarsárdals en þar var þátttakan 17,0%, fast á hæla kom Kjalarnes með 16,1% kosningaþátttöku. Í þriðja sæti var Árbær og Norðlingaholt með 15,5% þátttöku.

Alls voru 62 verkefni sem hlutu kosningu í allri Reykjavík og er heildarfjöldi verkefna sem hlotið hefur kosningu í Hverfið mitt nú orðinn 960. Hægt er að smella á hlekkinn hér að neðan til að sjá þau verkefni sem hlutu kosningu í verkefninu.